28.4.2015 | 16:01
Kaldur sumarylur.
Það snjóaði á Sumardaginn fyrsta og snjóar enn þótt komið sé fram undir 1.maí. Lítil sól og sumarylurinn er heldur kaldur.
Hann er líka fremur kaldur sumarylurinn hans Gylfa Ægissonar, sá sem hann orti um í Listigarðinum á Akureyri á sínum tíma. Gamli góði klámhundurinn er allt í einu orðinn siðapostuli hinn mesti og farinn að skrifa fjálglega um þá synd sem það sé að vera kynvilltur, en það mun vera orðið sem notað var yfir samkynhneigða hér fyrr á árum. Jú það kann að vera synd að vera samkynhneigður, það kann líka að vera synd að vera fatlaður, lítill, svartur eða hjólbeinóttur, jafnvel að vera rauðhærður og laun syndarinnar kvað víst vera dauði. Það eru þá líklega margir sem munu deyja og þröngmikið í hinu neðra, því þangað fara jú syndararnir. Nú veit ég að Gylfi Ægisson er mjög biblíufróður maður. Eins og títt er í hinum ýmsu trúarsöfnuðum þá hefur hann vafalaust á taktinum alla kaflana og versanúmer hinna ýmsum ritningastaða. Því legg ég hér til við þig Gylfi minn að þú takir Biblíuna þína þér í hönd og flettir upp á sögunni um bersyndugu konuna, þar segir sjálfur Jesús Kristur, líklega gáfaðasti maður allra tima, "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum". Hugleiddu þetta Gylfi minn, taktu svo flugið til Akureyrar á fallegum sumardegi, farðu í Ríkið og kauptu flösku, labbaðu svo uppí Listigarð og sestu þar með flösku og gítar til að semja fallegt lag um fordóma og andúð þína á þeim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.