Hið mikla vindhögg.

Þau gerast stór vindhöggin í íslenskum stjórnmálum þessa dagana.

Utanríkisráðherra leggst í bréfaskriftir án þess að spyrja kóng eða prest, með þeim afleiðingum að viðtakendur skilja hvorki haus né sporð.  Að slíta viðræðum merkir að halda þeim áfram og halda áfram viðræðum merkir eiginlega að þeim sé slitið.  Ekki nema von þó að Evrópusambandið bendi mönnum vinsamlegast á að þeir skuli annast sín innaríkismál sjálfir án utanaðkomandi aðstoðar. 

Maður veit ekki hvort maður eigi að hlægja eða gráta.  Hátt var reitt til höggs, nú skyldi svo aldeilis þagga niður í stjórnar andstöðunni, að ekki sé talað um þessa bölvuðu þjóð eða þetta þing sem alltaf er að þvælast fyrir.  En höggið var vindhögg vegna þess að það virðist í raun engin áhrif hafa nema það að setja allt stjórnkerfi landsins í uppnám. 

Menn eru búnir að snúa fyrstu grein stjórnarskrárinnar á haus og tala um stjórnarbundið þing en ekki þingbundna stjórn.  Það er næstum því hægt að segja að við séum komin aftur til stéttaþinga einveldistímans í Evrópu.  Þingið á bara að vera til ráðgjafar í stjórnvöldum í einstökum málum, má leggja gott til, getur að vísu fræðilega borið fram vantraust á stjórnina en það er einungis fræðilegur möguleiki þar sem við sjáum ekki flokkshundana á þingi rísa upp og setja ríkisstjórn af.  Hversu mjög sem hún klúðrar málum og hversu mjög hún traðkar á stjórnarskárbundnu þingi. 

Auðvitað ætti utanríkisráðherra að viðukenna það sem augljóst er að hann ræður ekki við embætti sitt.  Hann myndi njóta virðingar ef hann viðurkenndi þetta, segði af sér en afturkallaði áður bréfið og seldi ákvörðunarrétt í málinu til þjóðarinnar.  Í því efni er enginn ómöguleiki til.  Samþykki þjóðin aðildarviðræður er einboðið að annaðhvort rjúfi forsætisráðherra þing eða evrópusinnuð minnihlutastjórn stýri landinu fram að næstu kosningum efir tvö ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband