10.3.2015 | 16:38
Loftkastalar.
Það gengur mikið á á Suðurnesjum.
Þar hrynja nú loftkastalar hver á fætur öðrum. Aumingja Árni Sigfússon lýsir allri ábyrgð á hendur sér en dregur svo nokkuð í land. Sveitafélagið rambar á barmi gjaldþrots, þó svo að sveitafélög geti víst ekki orðið gjaldþrota.
Fyrir þessu ástandi eru sossem ýmsar ástæður. Þarna varð að sjálfsögðu ákveðin kreppa þegar herinn fór nokkuð skyndilega, enda ekkert gert til að undirbúa Suðunesin undir það að verða herlaus og hermangsgróðinn að mestu fluttur til Reykjavíkur. Ekki voru gerðar ráðstafanir til að finna ný atvinnutækifæri, t.d með því að flytja landhelgisgæsluna og sérsveit ríkislögreglustjóra til Keflavíkur. Mest um vert er þó þessi vitleysa sem menn fóru í vegna ímyndaðs álvers í Helguvík. Farið var í gríðarlega húsnæðisuppbyggingu og aðrar framkvæmdir, sveitafélagið skuldsett úr hófi fram út af einhverjum loftkastala sem aldrei var byggður. Við þetta bættist umtalsverð spilling og fyrigreiðslupólitík af ýmsu tagi, og því fór sem fór.
En þetta er mjög miður því fá landssvæði hafa meiri tækifæri til atvinnusköpunnar og orkunýtingar en Suðurnes, með allan jarðhitann, gjöful fiskimið og alþjóðaflugvöllinn í túnfætinum. En til að þessi tækifæri nýtist verða menn að hætta að einblína á stóriðjur með að mestu vinnuafli úr Reykjavík og huga frekar að nýtingu auðlindar lands og sjávar til nýsköpunnar og uppbyggingar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.