7.1.2015 | 16:02
Sjúkrahús og flugvellir.
Þá eru blessaðir læknarnir búnir að semja. Búnir að fá einhverja leiðréttingu, eitthvað í áttina við það sem gengur og gerist í útlandinu, enda auðvitað skítt að bera sig saman við hin lélegu lífskjör á Íslandi.
Svo virðist sem samúð almennings og fjölmiðla hafi verið þónokkur með læknunum, hvað sossem þessi samúð nær langt þegar að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði kemur. En það er athyglisvert við fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga, að svo virðist sem eina sjúkrahúsið á Íslandi sé Landspítalinn, rétt eins og Reykjavíkurflugvöllur er í augum fjölmiðla, hin eina sanna miðstöð innanlandsflugs á Íslandi. Og þessi mál tengjast raunar einkennilega.
Ein af þeim réttlætingum sem sett er fram fyrir því að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni er að hann sé svo nálægt Landsspítalanum og svo er bygging nýs Landsspítala m.a réttlætt með því að hann sé svo nálægt flugvellinum, sem þó margir Reykvíkingar vilja helst sjá úti í hafsauga.
En það er ekki bara hægt að stórhækka kaup læknanna og byggja margmilljarða nýjan spítala. Einhversstaðar verður að fá peninga í þetta og maður undrast stundum stórlega hvers vegna ekki er reynt að finna einhverja ódýrari lausn, amk næstu áratugina. Af hverju er td heil hæð á sjúkrahúsinu í Keflavík látin standa auð, þó þetta sjúkrahús sé í næsta nágrenni við alþjóða flugvöll. Hvað þó það víst vera einhver skilyrði fyrir því að flugvöllur fái viðurkenningu að þar sé sjúkarhús í nánd og afhverju er ekki ráðist í að reisa stórt alþjóðlegt sjúkrahús á Akureyri, sem til að mynda gæti ráðið við atburði á borð við það ef kviknar í skemmtiferðaskipi úti fyrir norðurlandi. Svo virðist sem almannavarnir hafi enga hugsun á því að slíkt geti gerst. Nei, menn vilja byggja stóran kassa við Hringbrautina með tilheyrandi umferð og útblástursmengun og ofan í kaupin vilja menn eyða 20 milljörðum í að byggja nýjan flugvöll einhversstaðar uppi á heiði í stað þess að nota stóra dýra alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.