26.11.2014 | 17:39
Brauðmolar
Á sama tíma og þetta er skrifað er fjárlaganefnd alþingis að dekka veisluborð, eða eigum við að segja, að kaupa aflát fyrir syndir ríkisstjórnarinnar í lekamálum og öðru.
Brauðmolar munu falla af veisluborðinu, til handa þurfalingum þessa lands og hugsanlega munu einhverjir þeirra jafnvel lenda á landsbyggðinni, samanber fiskistofu. Þeir duga þó skammt til að sefa hungrið hjá almúganum á landsbyggðinni sem horfir á dýrðina fyrir sunnan. Það er ekki nóg með að menn tali um nýjan Landsspítala, kórónu kísilvera í kringum Reykjavík og meira að segja 100 milljarða borgarhlutann hans Dags.
Maður er næstum farinn að efast um það hvort að Reykjavík sé fær um að vera höfuðborg áfram, eins og veislugestirnir þar haga sér stundum gagnvart landsbyggðinni. Hroki, heimóttaskapur og eigingirni virðast ríða þarna húsum, menn vilja Landsspítala en ekki flugvöll. Læknar láta landsbyggðarfólk fara sneypuför suður og sitja á samningafundum svo þeir geta ekki skrifað á ferðavottorð, þannig að þetta fyrirbæri sem kallast sjúkratryggingar, sem upphaflega var stofnsett til að búa til bittling handa kunnum sjálfstæðismanni, greiða ekki ferðakostnaðinn. Sjálfsagt í anda hagræðingar þeirra og sparnaðar sem Vigdís Hauksdóttir talar svo fjálglega um. Auðvitað sparar það ríkinu að þurfa ekki að greiða þann kostnað og nýju borgarfötin hans Dags mun ekki fyllast af fólki sem nú býr við okurleigu, heldur eins og Breiðholtið gerði forðum, mun þessi borgarhluti fyrst og fremst hýsa efnahagslega flóttamenn af landsbyggðinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.