4.6.2014 | 17:24
Pandóruaskjan.
Oddviti Framsóknar í Reykjavík var dálítið seinheppin á dögunum þegar hún fór að fiska í gruggugu vatni eftir atkvæðum í borgarstjórnarkosningunum.
Sennilega hefur hún ekki verið alveg þess meðvituð að með því að fjalla um moskubygginguna myndi hún eins og Pandóra forðum opna öskju sem allskonar óhroði flaug út úr.
Því miður flykktust allskyns ofstækishópar og öfuguggar að þessu og var ein sóðalegasta birtingamyndin sá óþverri sem birtur var á Vísi, þar sem formanni félags múslima á Íslandi var hótað lífláti og ýmislegt ekki eftirhafandi um hann sagt.
Við getum fordæmt þau hryðjuverk og þá glæpi sem framkvæmdir eru í nafni Islams, þeir eru óþolandi, en það þýðir ekki að allir þeir sem aðhyllast þá trú sé líka óalandi og óferjandi.
Minnast skulum við þess að mörg óhæfuverk hafa líka verið framin í Jesúnafni, t.d útrýming heilla þjóða í Suður-Ameríku, þar sem prestarnir blessuðu sverð morðingjana, en auðvitað er þetta svo fjarri hinni fögru boðun Krists sem verða má.
En maður furðar sig á að múslimar skuli þráast við að vilja byggja moskuna í Reykjavík eftir þessa uppákomu í Framsókn og atburðinn þarna með svínshausana.
Manni dettur í hug af hverju moskan er ekki bara byggð á Akureyri, slíkt mannvirki yrði mjög fallegt og myndi vafalaust draga að sér marga ferðamenn, því ekki einhverja forríka olíufursta sem ekki vita aura sinna tal.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.