20.5.2014 | 17:39
Í öskustónni.
Nýverið kom út skýrsla um fátækt á Íslandi, á vegum Rauða krossins.
Ýmislegt athyglisvert er að finna í þessari skýrslu. Þarna er að sjálfsögðu rætt um þá hópa sem við flest vitum að teljist til fátæklinga, öryrkjar, einstæðar mæður og barnafjölskyldur.
En hér bætist allt í einu við nýr hópur. Ungir karlmenn á aldrinum 16-28 ára. Menn sem hafa flosnað uppúr skóla, ekki komist inn á vinnumarkað og af einni eða annari ástæðu lent utanveltu í samfélaginu.
Margir þessara ungu manna hafa, ef svo má segja, legið í öskustónni heima hjá pabba og mömmu oft fram yfir tvítugt og enga framtakssemi sýnt, leitað sér vinnu eða haldið áfram námi, heldur hafa þeir snúið sólarhringnum við, setið við tölvuna eða leikið sér á hjólabrettum.
Menn leita skýringa og þær er ekki auðvelt að finna.
Hér áður fyrr þótti sá ekki maður með mönnum sem ekki vann fyrir peningum, en nú virðist fjárhagslegt sjálfstæði og þar með siðferðilegt sjálfstæði ekki vera keppikefli ungra manna lengur.
Orsakirnar eru margvíslegar, almennt ábyrgðarleysi í samfélaginu, hækkun sjálfræðisaldurs 1996 hefur eflaust einhver áhrif og einhver andúð á öllu sem heitir vinna.
Það er ekki auðvelt að sjá hvað hér er til úrbóta, en þeir hjá Rauða krossinum hafa sagt mér að þessi þróun valdi þeim miklum áhyggjum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.