19.2.2014 | 20:49
Baðstrandarleikarnir
Það fer víst ekki fram hjá neinum að vetrarólympíuleikar standa nú yfir. Að þessu sinni eru þeir haldnir í borg einni við Svartahaf sem mun víst fyrst og fremst vera baðstrandarbær þar sem hitinn fer sjaldnast niður fyrir 12 gráður á veturna. En keppnin fer auðvitað að miklu leyti fram uppi í fjöllum þar skammt frá, þar sem búið er að byggja aðstöðu sem kostaði mörg fjárlög íslenska ríkisins að reisa. Þessir baðstrandarleikar eruð auðvitað ekki hvað síst haldnir til þess að Pútín geti sýnt mátt sinn og dýrð.
Þetta mun þó alls ekki vera í fyrsta skipti í sögunni sem leiðtogar halda ólympíuleika sjálfum sér til dýrðar. Frægasta dæmið eru auðvitað ólympíuleikar Hitlers í Berlín árið 1936 og De Gaulle gerði slíkt hið sama næstum í mýflugumynd þó stórt væri með vetrarólympíuleikunum í Grenoble árið 1968. Maður kom þarna tveimur eða þremur árum síðar og voru sagðar tröllasögur af gífurlegum fjárfestingum, sóun og spillingu og síðan samdrætti með staðbundinni kreppu. Og eitthvað þvíumlíkt, bara í enn stórkarlalegri mynd er nú að gerast austur í Sotsji. Þarna veður spillingin uppi og tröllasögur heyrast um tevatn í hótelherbergjum, skiptimarkaði á hurðarhúnum og ljósaperum og ýmislegt ámóta skoplegt. En öllu gamni fylgir alvara.
Þetta er svo sem ekki eina dæmið um spillt alþjóðamót í íþróttum. Talað er um að þúsundir farandverkamanna hafi látið lífið við undirbúning heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Qatar og ýmislegt er líka sagt gruggugt varðandi undirbúning sama móts og ólympíuleika í Brasilíu. Það hlýtur að vera kominn tími til að farið verði að hreinsa til í þessum alþjóðastofnunum sem skipuleggja mótin. Losa verður samtökin við þessa öldruðu, gjörspilltu karlfauska sem þarna virðast ráða og taka inn nýtt, ferskt hugsjónafólk sem getur komið á nýrri og bættri skipan þessara mála.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.