Hátt verðlag.

Það mátti næstum glytta í silfurskeiðarnar í munni fjármálaráðherrans okkar þegar hann á dögunum talaði um að verkalýðshreyfingin þyrfti að stilla kaupkröfum í hóf.  Það getur vel verið að svo sé, en þá þurfa fleiri að gæta hófs.  Sennilega hefur aumingja fjármálaráðherrann ekki gert sér grein fyrir því hversu hátt verðlagið er í dag, þarf sennilega ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því og hefur aldrei þurft.  Hátt verðlag á Íslandi á sér ýmsar orsakir.  Nefna má fjarlægðina frá mörkuðum, mikla þörf fyrir innflutningsverslun sem leytt hefur af sér þau vandamál sem lággengisstefnan hefur skapað, að nota gengisskráningu ekki sem hitamæli á efnahagsstjórn heldur sem hagstjórnartæki eða jafnvel tæki til að græða peninga, eins og nýlegt dæmi leiðir í ljós.  Hér bætist svo við sú óhugnanlega fjárfesting sem hér er í verslunarhúsnæði, en sagt er að í Reykjavík sé meira verslunarrými í fermetrum talið en í Kaupmannahöfn.  Færa má rök að því að Smáralind og jafnvel Kringlan séu offjárfestingar.  Sumar verslanir eru á báðum stöðum og leigan er svo há að álagningin stendur ekki undir henni.  Laun á Íslandi kunna að vera há en staðreyndin er sú að þau duga ekkert í dag vegna þess hversu verðlag er hátt, að miklu leyti að óþörfu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Spurning hvort ekki sé líka fyrir þá staðreynd að flestir eru líka skattlagðir nánast uppí rjáfur...

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 24.10.2013 kl. 17:47

2 Smámynd: Reynir Heiðar Antonsson

Kaldi minn.  Þú veist ósköp vel að skattar eru ekkert úrslitaratriði þegar um verðlagningu er að ræða.  Aðalástæður hins háa verðlags á Íslandi eru fyrst og fremst hin vesæla króna okkar í landi sem er svo mjög háð innflutningi.  Flutningskostnaður og prósentuálagning í heildsölu og smásölu.  Ef skattar eru lækkaðir á vöruverð er vísast að lækkunin lendi í vasa verslunarinnar en ekki almennings.

Kveðja Reynir.

Reynir Heiðar Antonsson, 31.10.2013 kl. 17:23

3 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæll Reynir

Það er nú samt svo að flutningskostnaður er ekki útskýring eða rök fyrir háu verðlagi. Það sést bara á því að verslanir sem reknar eru af til dæmis Pólverjum sem flytja sínar söluvörur inn þaðan eru með lægri verð en maður sér víða hjá íslenskum verslunarkeðjum.

Hef séð dæmi um yfir 200kr verðmun á einni vörutegund, svona sem dæmi. En hinsvegar eru það skattamálin sem mest svíða enda er skattur á laun sem maður fær frá vinnuveitanda, svo vantar mig að versla í matinn, hvað þá? enn meiri skattur frá 7% uppí 25,5% fer eftir vörutegundum. Svo þarf maður að koma sér milli staða og þá er skattur á eldsneytið, bílinn, og allt sem því tengist, að ógleymdum kolefnisskattinum, sykurskattinum (sem er að skella á), og fleiri ótöldum sköttum sem maður þarf að borga.

Eftir þessa upptalningu þá er nokkurnveginn ljóst að mest af þeim launum sem maður fær endar hjá ríkinu í formi einhverskonar skatts...

Það er ekki hægt að hrekja þá staðreynd...

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 2.11.2013 kl. 11:13

4 Smámynd: Reynir Heiðar Antonsson

Kaldi minn.  Nú skaltu reikna út hægt og rólega hversu mikinn hluta af verðlagi tiltekinna vörutegunda má rekja til ríkisvaldsins beint eða óbeint og hversu mikið til flutningskostnaðar, lágs gengis krónunnar og álagninga.  Ég er ekki viss um að skattar, þó svo að háir séu hafi hérna úrslitaráhrif.

Kveðja Reynir.

Reynir Heiðar Antonsson, 5.11.2013 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband