Götur bæjarins

Í minningunni frá námsárunum í Frakklandi er það hvaða hlutverki manni þóttu götunöfnin í frönskum bæjum og borgum oftlega gegna. Maður gat jafnvel getið sér nokkuð til um pólitíska hefð viðkomandi sveitarfélags með því að skoða götunöfnin í bænum. Þannig var í minningunni bærinn sem undirritaður bjó í, lengi undir stjórn kommúnista og voru því götunöfnin mjög á þeim vængnum. Þar voru til dæmis götur sem bæði voru kenndar við Marx og Lenín. Aftur á móti gat maður séð það að ef aðaltorgið í borginni hét eftir De Gaulle eða Napoleon þá var viðkomandi sveitarstjórn frekar á hægri vængnum. Vissulega voru þó borgir þar sem götunöfnin voru þau sömu hver svo sem pólitískur litur viðkomandi borgarstjórnar var. Þannig mátti í flestum bæjum og borgum finna götur kenndar við Victor Hugo, Alexandre Dumas eða einhverja aðra merkismenn.

Hér á landi hefur þessi hefð ekki skapast. Að sönnu eru til einstaka götur sem heita eftir frægum sonum og dætrum landsins eða viðkomandi staða en slíkt er engan veginn algild regla. Finnst manni þó að þetta gæti verið gaman, ekki síst með tilliti til staðbundinnar ferðaþjónustu. Eyfirðingar eiga til að mynda fræga einstaklinga sem ekki hafa fengið sínar götur. Má þar nefna Nonna, Jónas Hallgrímsson, Víga-Glúm, Káinn og vafalaust einhverja fleiri. Það væri ekki svo vitlaus hugmynd að bæjarstjórn Akureyrar tæki til athugunar að gefa frægum sonum og dætrum Eyjafjarðar sína götu í stað þess að vera með öll þessi flatneskjulegu -tún, -lunda, -gerði og -síður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband