Framhaldssagan um flugvöllinn

Enn heldur framhaldssagan um flugvöllinn áfram. Þessi endalausa saga um það hvort flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni eða hvort Vatnsmýrin skuli afhendast byggingabröskurum borgarinnar.

Undirskriftasöfnun er senn í lengingu og kvað hafa gengið svo vel að jafnvel slær Icesave út. En það verður að segjast að þessi deila er svolítið hlægileg. Baldur frændi og fleiri góðir Reykvíkingar átta sig ekki á þeirri staðreynd að það mun koma verst niður á Reykjavík af öllum stöðum ef flugvöllurinn fer. Það munu ekki aðeins tapast um það bil þúsund störf heldur munu helstu forsendur ofurmiðstýringarinnar á stjórnkerfi Íslands bresta.

Þetta er ekki bara galli því það mun loks neyða landsbyggðina til að fara að bjarga sér sjálf án þess að bíða eftir dúsunum að sunnan. Og það er enginn sem segir að hátæknisjúkrahúsið þurfi að vera þarna við Hringbrautina ef sjúkraflugið leggst af. Allt þetta sýnir manni fram á þá staðreynd að líklega mun flugvöllurinn aldrei fara úr Vatnsmýrinni.

Önnur hætta sýnu meiri en lokun Reykjavíkurflugvallar stafar að innanlandsfluginu.

Svo fáránlega vill til að það getur nú oft verið ódýrara fyrir Reykvíking að fara til Kaupmannahafnar eða London heldur en til Akureyrar. Innanlandsflugið er á góðri leið með að verðleggja sig út af markaðnum og ekki mun bæta úr skák það sem þegar heyrist að kolvetnislosunarheimildirnar sem Evrópusambandið mun selja muni enn hækka hið háa verð á innanlandsflugi. Ögmundur gerði sitt til að skattleggja innanlandsflugið í topp en ekki afnam nýja stjórnin þennan skatt heldur skyldi lækka skattinn sem útlendingar borga fyrir hótelgistingu. Og ekki hafa heyrst tillögur um að gera hér eins og til dæmis tíðkast á Spáni þar sem flug er niðurgreitt fyrir vissa íbúa landsbyggðarinnar. Heldur er stefnan sú að reyna að loka fyrir alla þá sem bjóða upp á ódýrari samgöngur til hinnar ástsælu höfuðborgar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband