2.3.2013 | 21:54
Stjórnarskrárbrölt
Það ætlar að ganga illa að klambra saman nýrri stjórnarskrá handa lýðveldinu Íslandi og alls óvíst að það fái hana í afmælisgjöf á komandi sjötugsafmæli þó svo hún hafi raunar alltaf verið meira eða minna í umræðunni allt frá því menn létu gömlu stjórnarskrána að mestu standa óbreytta við lýðveldisstofnun 1944. En slíkt ráðslag átti víst aðeins að vera til bráðabirgða en það hefur samt staðið í nærri 70 ár.
Allar horfur eru á því að hinni rétt ófæddu nýju stjórnarskrá verði ekki einu sinni bjargað með bráðakeisara. Sterk öfl vilja og munu hugsanlega koma í veg fyrir fæðingu hennar. En hún getur þó hæglega valdið töluverðum usla. Stjórnarskrárdrögin eru reyndar komin úr nefnd en menn virðast ætla að draga það von úr viti að halda áfram annarri umræðunni. Ofan á allt þetta vofir yfir vantrauststillagan hans Þórs Saari en samþykkt hennar myndi að sjálfsögðu valda algjörum glundroða. Þingið mundi fara heim, hlaupandi frá öllum málum og jafnvel umræður um slíka tillögu munu tefja svo störf þingsins að það mun ekki hafa tíma til að afgreiða öll þau mál sem fyrir liggja. Þó verður væntanlega reynt að troða í gegn Landsspítalakumbaldanum, náttúruverndarlögunum og hugsanlega jafnvel kvótafrumvarpinu sem gæti svo endað hjá forseta.
Alla veganna er ljóst að það fara í hönd spennandi dagar og afar dramatískir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.