1.3.2013 | 21:05
Skuldir á skíðum
Skuldir heimilanna voru mættar í Hlíðarfjall síðast liðinn laugardag. Þar var svo mikil umferð lúxusjeppa, hver öðrum glæsilegri, að lögreglan þurfti að stjórna umferð.
Skýringin á þessu mun hafa verið sú að vetrarfrí var í skólum á höfuðborgarsvæðinu, samfara einstaklega góðu veðri og því stormuðu fínu fjölskyldurnar úr borginni á lúxusjeppunum sínum í sínu fínasta skíðapússi.
Margir þessara jeppa eru þannig til komnir að þeir eru keyptir fyrir peninga sem fólk fékk á sínum tíma með skuldbreytingu á íbúðarlánum yfir í ódýr lán sem bankarnir buðu hver í kapp við annan. En lánin voru verðtryggð og því fór sem fór þegar krónan hrapaði. Þannig er stór hluti af skuldum heimilanna til kominn.
Vissulega er til fólk, ungt barnafólk sem tók lán til íbúðakaupa, sem stökkbreyttust. Það er nefnilega eðli verðtryggingarinnar að fólk í rauninni greiðir lánin í annarri mynt en það fær laun sín greidd í. Vissulega eru til erfiðar skuldir en það eru líka til skuldir sem fólk hefur efni á að borga, skuldir sem stofnað var til vegna kaupa á jeppum, flatskjám og öðru glingri. En verðtryggingin fer ekki í manngreinarálit.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.