6.1.2013 | 20:48
Miskunnsamir samverjar
Hún Agnes okkar úr Bolungarvík byrjar biskupstíð sína með stæl. Nú á að blása til söfnunar fyrir tækjum handa Landsspítalanum. Þjóðkirkjan ætlar hér að gerast hinn miskunnsami samverji og hlaupa með því inn í hlutverk ríkisvaldsins sem mörgum virðist hafa brugðist að þessu leyti.
Annars vekur það athygli hvað allir eru allt í einu farnir að safna fé til tækjakaupa fyrir þennan Landsspítala. Stúlkukind er að ganga á Suðurpólinn til ágóða fyrir hann, haldnir eru basarar og nú bætist Þjóðkirkjan við. Það er eins og ekkert annað sjúkrahús sé til á landinu. Finnst manni þó að Agnes ætti að þekkja af eigin raun vandann í heilbrigðismálum landsbyggðarinnar. Það væri nú ekki svo vitlaust að safna til dæmis fyrir góðu bráðasjúkrahúsi á Ísafirði, reynslan af áramótaveðrinu sýnir að Vestfirðir geta hæglega einangrast. Og ef við ætlum í alvöru að gerast gjaldgeng í samkeppninni um miðstöð olíuleitar verðum við að byggja upp gott alþjóðasjúkrahús á Akureyri. Í þessu sambandi má ekki hugsa um einhvern Landsspítalakumbalda sem eyland. Landsspítali verður að vera hluti af stærri heild sem myndar fullkomið, þróað heilbrigðiskerfi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.