28.12.2012 | 14:23
Í aldanna skaut
Þá er blessuð jólahátíðin um garð gengin, þjóðin búin að éta á sig gat og að vanda friðaði hún samviskuna á líkamsræktarstöðvunum strax á annan í jólum. Og auðvitað þurfti líkamsræktin að kosta peninga, það verður að kaupa aflátsbréfin fyrir drýgðar jafnt sem ódrýgðar syndir. Og senn líður þetta afmælisár Akureyrar í aldanna skaut eins og öll hin árin þar sem þau hvíla í friði í umlykjandi mishlýjum faðmi eilífðarinnar.
Við minnumst þessa árs mikilla öfga bæði hjá náttúru og mannfólki. Hitar og þurrkar einkenndu sumarið og hretviðri haustmánuðina. Stjórnmálin gengu eins og vanalega, við kusum okkur forseta og jólamálþófið var á sínum stað. Ríkisstjórnin getur hvorki lifað né dáið. Sennilega versta ríkisstjórn sem hugsast getur, en ef til vill jafnframt sú einasta sem komið getur þjóðinni út úr stórsjó kreppunnar án þess að þjóðarskútan brotni í mél.
En nýtt ár er handan við hornið með öllum sínum flugeldum, áramótaheitum sem aldrei verða efnd og kosningum sem hugsanlega færa okkur nýja stjórn. Stjórn sem hugsanlega tekst að koma þjóðinni fram af hengifluginu nema enn takist hið ómögulega sem alltaf hefur tekist að halda skútunni á floti með þessari frábæru "þetta reddast" efnahags- og fjármálastefnu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.