17.12.2012 | 15:03
Þingeyskt loft
Eftir fréttir Stöðvar 2 á sunnudögum er á dagskránni þáttur sem nefnist Um land allt og er eins konar útgáfa Stöðvar 2 á Landanum hans Gísla Einarssonar á RÚV, þó að sumu leyti sé hann nokkuð ólíkur.
Í gær var þessi þáttur staddur í Mývatnssveit og viðfangsefnið eiginlega það sem við getum kallað þingeyskt loft, en fjallað var um athafnamanninn Leif Hallgrímsson sem fyrst vakti athygli þegar hann spilaði með hinni vinsælu hljómsveit Hver, en stofnaði síðar flugfélagið Mýflug sem rekið hefur verið á sömu kennitölunni í um 20 ár. En þetta flugfélag byrjaði með eina litla rellu en hefur stækkað í það að sjá í dag um nærfellt allt sjúkraflug á Íslandi. Það er því þingeyskt loft sem flytur sjúklingana á sjúkrahús ef svo ber undir.
Sitt hvað athyglisvert kom fram í þessu viðtali og meðal annars sá ásetningur Leifs að halda höfuðstöðvum þessa flugfélags heima í sinni kæru Mývatnssveit, þar sem hann einnig rekur mjög sérstæða ferðaþjónustu meðal annars í fjósi. En það var athyglisvert að hugsa um sjúkraflugið sem er svo mikilvægt í þessu stóra og afar strjálbýla landi og manni varð á að hugsa hvort að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé ekki svolítið á rangri vegferð núna. Maður spyr sig hvort það sé virkilega í þágu heilbrigðisþjónustu á Íslandi að reisa einhvern risavaxinn kumbalda í miðborg Reykjavíkur. Ekki síst ef þau áform ganga eftir að flytja innanlandsflugið burt. Það kom fram að oft er það spurning um mínútur hvort sjúklingur kemst undir læknishendur í tæka tíð. Nú spyr maður hvort að ekki væri vitlegra til dæmis að byggja upp miðstöð bráðaþjónustu á Akureyri, meira en orðið er ekki síst í ljósi þess að Akureyri verður líklega í framtíðinni miðstöð þjónustu við olíuleit. Einfaldlega vegna þess að hér er þegar fyrir hendi fjárfesting og ekki grundvöllur fyrir að byggja loftkastala austur á Langanesi eða annars staðar.
Eftir sem áður getum við gert nauðsynlegar endurbætur á Landsspítalanum en uppbygging á Akureyri mundi einnig létta af honum álaginu sem nú er. Við verðum að fara að hætta að hugsa svona miðlægt um hlutina. Ríkið er ekki bara Reykjavík, við erum öll þátttakendur í því.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.