12.12.2012 | 15:32
Verðbólga gegn verðbólgu
Jólamálþófið er á fullu hjá þingmönnum þessa dagana. Það hyllir undir að fjárlögin verði loks afgreidd eftir langa og erfiða fæðingu og sjálfsagt fylgir hinn árvissi bandormur í kjölfarið á næstu dögum.
Hann er annars dálítið skondið fyrirbrigði þessi bandormur. Sagt er að þegar menn eru farnir að rétta sig af, eins og það er kallað, eftir fyllerí þá séu þeir farnir að eiga við áfengisvandamál að stríða. Þannig er þessu að nokkru leyti varið með bandorminn. Þar er verið að ýta undir verðbólgu með því að hækka ýmis gjöld í samræmi við verðbólgu síðasta árs. Verðbólgan sem hlýst af hækkuninni reiknast inn í framfærsluvísitölu og næsta ár þarf að framkvæma sömu hækkanirnar til að bæta upp verðbólguna sem hið fyrra frumvarp olli. Og hin svokölluðu lán heimilanna hækka og hækka með hækkun lánskjaravísitölunnar. Það er undarlegt að mönnum skuli ekki detta í hug eitthvert ráð til að rjúfa þennan vítahring, til dæmis mætti gera það með því að setja lög um að hækkanirnar í bandorminum fari ekki inn í lánskjaravísitölu.
Að fresta timburmönnum með því að drekka meira áfengi er engin lækning við þeim heldur er það aðeins frestun á vandanum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.