Jólaþras

Bráðum fara jólasveinarnir að tínast til byggða einn og einn eins og venjulega á þessum tíma árs. Á sama tíma fara aðrir jólasveinar að tínast frá byggðum ef svo má segja, þið vitið þessir þarna við Austurvöll. Og að vanda er jólaþrasið byrjað hjá þeim þó svo ekki heyrist mjög mikið í Grýlu með gráa hárið og geislabauginn.

Að venju talar stjórnarandstaðan um ýtarlega umræðu um málin, umræðu sem stjórnarliðar kalla málþóf. Og vissulega má oft greina ýmis málþófseinkenni á umræðunni síðustu daga þegar menn standa í pontu og horfa yfir næstum auðan salinn þyljandi einhverja speki sem enginn heyrir og enginn hefur raunar áhuga á, en verður samt alltaf að hafa sinn gang formsins vegna. Þjóðin er auðvitað löngu hætt að fylgjast með þessu, hún er upptekin af öllum jólalögunum, jólaljósunum og síðast en ekki síst öllu auglýsingaflóðinu sem dynur á okkur og býður hitt og þetta sem ómissandi jólagjafir og alltaf fyrir alla fjölskylduna.

Jólin eru vissulega fjölskylduhátíð en reyndar er þessi fjölskylduhátíð orðin nokkuð útþynnt því allan ársins hring glymur klisjan "fyrir alla fjölskylduna" í eyrum okkar. Og enginn veit lengur hvernig skilgreina á fjölskyldu, erum við ekki bara öll ein stór fjölskylda ef út í það er farið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband