Sneypuför sjóarans

Björn Valur Gíslason, hinn Roð- og beinlausi skipstjóri úr Ólafsfirði, fór enga frægðarför suður til Reykjavíkur um helgina. Ætlunin var að sækja þangað gull og græna skóga í formi atkvæða handa sér í prófkjöri, en reyndin varð sú að hann fór að flestra dómi hina mestu sneypuför, náði ekki einu sinni 6. sætinu, enda ef til vill aldrei von til þess að hann fengi mikið brautargengi meðal hinna vinstri grænu umhverfissinna í 101 þar sem máltækið er ekki "þeir fiska sem róa" heldur öllu heldur "þeir stunda rányrkju sem fiska". Í því viðhorfi er vissulega ekki mikil sjómennskuviska fólgin. Líklega er þessi sneypuför samt eitt ljósasta dæmið um hinar tvær þjóðir sem sagðar eru byggja land þetta.

Ef til vill má segja að Sigmundur Davíð sé annað slíkt dæmi en öfugt. Þar ætlar höfuðborgarbúi að fara að gera sig gildan á landsbyggðinni, sjálfsagt án þess að þekkja nokkuð til mála þar.  Og má segja að hann sýni þarna nákvæmlega sama dómgreindarskort og skipstjórinn. Reyndar segja illar tungur að með framboði sínu sé Sigmundur Davíð að búa í haginn fyrir það að ná í eitthvað af væntanlegum olíugróða í sínu nýja kjördæmi og feta þar í fótspor fjölskyldunnar sem á sínum tíma náði sér í mikla og dýra Kögun með pólitískum bellibrögðum.

Vonandi sýna nú Framsóknarmenn á Norðurlandi eystra sömu skynsemi og hinir vinstri grænu Reykvíkingar sem höfnuðu aðskotadýrinu sem leitaðist eftir að troða sér inn á lista þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband