Útþynnt jól

Það er kominn 15. nóvember, dagurinn sem menn segja almennt að skammdegið hefjist. 

Jólin eru í nánd..... eða svo sýnist manni. Farið er að minnast á jólin í annarri hverri auglýsingu og jólaskreytingar eru farnar að sjást á götunum, svo ekki sé talað um búðirnar sem óðum fyllast af jólavarningi. Meira að segja mjólkin er komin í jólafötin. Það eru þó enn þá um það bil sex vikur til jóla..... en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Verslunin má alls ekki missa af jólagróðanum.

Samkvæmt könnun sem nýlega var greint frá telst meðal Íslendingurinn eyða liðlega 43 þúsund krónum í jólahaldið. Og hin sígilda fjögurra manna fjölskylda eitthvað tæpum 200 þúsundum. Bókaflóðið skellur á með miklum krafti og plötuflóðið kemur í kjölfarið. Allt er á hverfandi hveli.

En óskaplega finnst manni þetta allt byrja eitthvað snemma nú í ár. Hætt er við því að þegar blessuð jólin loksins koma verði flestir búnir að fá nóg af þeim og ef satt skal segja þá eru jólin í dag orðin svolítið úþynnt. Lítið fer fyrir hátíðleika og kyrrð. Svo langt er þetta gengið að manni er sagt að fólk sé jafnvel hætt að fara í hátíðarföt á jóladag og mæti jafnvel í jólaboðin íklætt gallabuxum og stuttermabol.

Nú var Jesús Kristur líklega alls ekki fæddur á jóladag og ekki heldur það ár sem við miðum fæðingartíma hans við. Samt fer ágætlega á því að við höldum upp á afmælið hans á þessari hundheiðnu hátíð þegar ljósið sigrar myrkrið. Og þeir sem hindra börn sín í því að njóta jólahátíðarinnar, fremja gróft mannréttindabrot. Mannréttindabrot sem menn hyggjast nú jafnvel stjórnarskrárverja. Jólin eru nefnilega annað og meira en trúarhátíð. Þau eru beinlínis nauðsynleg í myrkri norðursins til að sýna fram á það að ljósið sigrar myrkrið alltaf. En þau á ekki að útþynna. Við eigum að byrja seinna að undirbúa þau og fara fram með gleði en ekki óhófi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband