Veður gerast válynd

Blessunin hún Svandís hefur farið með miklum látum allt sunnan úr Karíbahafi og norður um til austurstrandar Bandaríkjanna, skiljandi eftir sig slóð dauða og eyðileggingar. Það er svo sannarlega skap í henni blessaðri stúlkunni. Af hennar völdum hefur meira að segja þurft að loka einu stærsta musteri peningagræðginnar í heiminum, Kauphöllinni í New York.

Til eru þó þeir sem segja má að njóti nokkurs góðs af tilburðum hennar. Fyrir Obama forseta er hún að vissu leyti happafengur eins konar lottóvinningur, svona réttri viku fyrir kosningarnar. Hún hefur nefnilega gefið honum óvænt tækifæri til þess að vera í sviðsljósinu og stappa stálinu í þjóðina og virðist nokkuð vel hafa til tekist.

En það er víðar sem veður gerast válynd. Hér á Íslandi er nú að byrja það sem sumir kalla gamaldags stórhríð á Norðurlandi og er henni spáð í allt að fimm daga, jafnvel meira, með tilheyrandi samgöngutruflunum, rafmagnsleysi, niðurfellingu á kennslu í skólum og öllu þessu. Þrátt fyrir okkar miklu tækni og vísindi er eins og við kunnum ekkert ráð þegar náttúran bregður sér í þennan ham. Ljósin slokkna, bílarnir festast, flugvélar fara ekki á loft og mannamótum verður að aflýsa eða fresta. Jafnvel pólitíkin leggst í einhvers konar dróma, því allir hafa um annað að hugsa.

Sunnanfjölmiðlarnir hafa þó meiri áhyggjur af því þó að einhverjar hljómsveitir komist ekki á þessa Iceland airwawes tónleika, heldur en að fólk og fénaður fenni í kaf fyrir norðan. Fyrir margan höfuðborgarbúann er íslenska landsbyggðin nefnilega miklu fjarlægari í vitundinni en austurströnd Bandaríkjanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband