Fitlað við sköpunarverkið

Fregnir berast af því að vestur í Bandaríkjunum sé verið að gera einstaklega merkilegar tilraunir með stofnfrumur. Meðal þess sem þær eru taldar geta leitt af sér er tækni sem gerir það kleift að í framkvæmd eigi börn þrjá foreldra og á þetta að gerast með því að nota tvær eggfrumur ásamt sæðisfrumu. Tilgangurinn er svo sem nógu göfugur, að reyna að útrýma ýmsum arfgengum sjúkdómum.

En þessu fylgja líka ýmsar áleitnar, siðferðilegar spurningar. Við vitum að í dag getur blanda tveggja foreldra leitt af sér þriðja einstaklinginn, sem er að einhverju leyti líkur báðum en þó um leið ólíkur. Líkt og vetni og súrefni mynda vatn sem er gjörólkt þessum lofttegundum. Og nú spyr maður hvað gerist þegar foreldrarnir verða orðnir þrír. Blöndunin hlýtur að verða enn flóknari.

Allt þetta fitl við sköpunarverkið hlýtur að orka nokkuð tvímælis. Við vitum að það er sama hversu göfugur ásetningur það er sem vísindamenn hafa, uppgötvanirnar hafa alltaf tilhneigingu til þess að vera misnotaðar, samanber dýnamítið sem Alfreð gamli Nóbel fann upp í góðum tilgangi en hann fékk mikið samviskubit af vegna misnotkunar.

Maður freistast til að hugsa hvort skammsýni miðaldakirkjunnar, þegar hún vísvitandi reyndi að hylja alla mannlega þekkingu, hafi ef til vill, eftir allt verið framsýni. Maður spyr sig hvort mannkynið gangi til góðs við að öðlast meiri og meiri þekkingu. Spurningin er hvort það sé hlutverk mannanna að fitla við sköpunarverkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband