15.10.2012 | 22:19
Hvítt og svart
Hvítur er stafurinn sem leiðbeinir hinum blinda gegnum eilífa svartnættið og það er dagur hvíta stafsins í dag, 15. október. Þetta eru andstæður; hvítt og svart, ljós og myrkur. Sumir ganga í ljósi og aðrir í myrkri. Sumir þurfa ljós til að lýsa sér, aðrir geta þurft myrkur til að dyljast fyrir ljósinu. En það eru hinir fyrrnefndu sem við beinum sjónum okkar að á þessum degi. Það fólk sem ekki getur notið ljóssins að einhverju eða öllu leyti.
Það hlýtur að vera nokkuð erfitt fyrir fólk með fulla sjón að ímynda sér hvernig það er að lifa við skerta sjón eða enga. Rétt eins og það er mjög erfitt eða ómögulegt fyrir sjóndapran mann að ímynda sér hvernig það er að hafa fulla sjón, eða jafnvel fyrir eineygðan að sjá með báðum augum.
Mjög mikið hefur á undanförnum árum áunnist í málefnum blindra og sjónskertra, ekki síst fyrir tilstuðlan Sjónstöðvar Íslands sem í dag heitir að vísu einhverju ægilega flóknu og leiðinlegu nafni sem enginn hefur getað útskýrt hvers vegna var klínt á hana. Tæknin á hér mikinn hlut að máli, þannig er til dæmis hið alræmda punktaletur nánast úr sögunni, í staðinn eru komnir hljóðdiskar eða talgervlar og handan við hornið eru ýmsar talandi tölvur, símtæki og fleira því um líkt.
Sá böggull fylgir þó skammrifi að mörg þessara tækja eru dýr í innkaupum, hátolluð og hjálpartækjabankar eru mjög tregir til að viðurkenna slíkar tækninýjungar sem hjálpartæki. Þetta á raunar við um ýmis fleiri hjálpartæki fyrir fatlaða. Halda mætti að þessir hjálpartækjabankar störfuðu í því skyni að spara ríkisstjóð en ekki aðstoða fatlaða.
En hvað um það, hlutunum fleygir fram, blindir fá sýn þó hún verði að miklu leyti í gegnum tölvur og tæknitól.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.