4.10.2012 | 15:19
Slökkt á geislabaugnum
Hún Jóhanna okkar er sjötug í dag. Hún hefur átt einkar farsælan en á stundum stormasaman feril sem stjórnmálamaður og nú hefur hún hugsanlega, í tilefni þessa afmælis, ákveðið að stíga til hliðar og slökkva á geislabaugnum. Eftir situr Samfylkingin hnípin í myrkrinu og veit ekki sitt rjúkandi ráð.
Jóhanna hefur verið svo óumdeildur leiðtogi að enginn hefur hugsað sér í alvöru að taka við. Margir minni spámenn eru tilkallaðir en enginn sterkur leiðtogi virðist útvalinn. Menn tala um Árna Pál ,sem reyndar hefur lýst yfir framboði, Katrínu Júlíusdóttur og jafnvel Dag B. Eggertsson. Guðbjartur virðist hafa dæmt sig úr leik með hinu fræga Landsspítalaklúðri sínu.
En sá leiðtogi sem veljast mun til forystu á erfitt verk fyrir höndum. Ljóst er að hver svo sem við stjórnvölinn stendur þá mun Samfylkingin tapa miklu í komandi þingkosningum. Að hætta núna og slökkva á geislabaugnum er einstaklega skynsamlegt hjá Jóhönnu. Þarna hættir hún á toppnum og tekur ekki þátt í þeirri niðurlægingu sem allar horfur eru á að Samfylkingin muni verða fyrir í komandi kosningum og það óverðskuldað af því að hún hefur þó að vissu leyti bjargað því sem bjargað verður. En það hefur svo sem gerst í kosningum víða í Evrópu að þeir sem reynt hafa að gera sitt besta hafa ekki hlotið lof að verðleikum og alls kyns populistar og ævintýramenn hafa náð völdum án þess að nokkuð hafi verið á bak við þá nema froða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.