26.9.2012 | 19:52
Sending að sunnan
Það gengur mikið á í framsókn þessa dagana og þá ekki hvað síst hér í kjördæminu. Ungi þingmaðurinn frá siglufirði sem á sínum tíma vaknaði upp á þingi hefur ákveðið að hætta og flestir töldu einbúið að Höskuldur prestsonur frá Akureyri tæki við sem oddviti listans en nei, sending kom að sunnan. Formaður flokksins af góðri og gildri reykvískri framsóknarætt tilkynnti að hann hygðist bjóða sig fram í oddvitasætið hans Höskuldar sem auðvitað ætlar ekki að sýna flokkshollustu með því að færa sig neðar. Nú er það svo sem ekkert nýtt að framsókn sendi svona sendingar út í kjördæmin og má meðal annars minnast þess að ég held fyrir 8 árum þá sendi framsókn norður hingað stelputrippi eitt, sem hafði þó þau tengsl við kjördæmið að hafa átt forfeður austur á landi. Í raun rímar þetta svolítið við byggðarstefnu framsóknar sem byggir á því að deila brauðmolum út í byggðirnar út frá veisluborðunum í Reykjavík. Nóg til þess að landsbyggðin hjari til að veita Reykjavík sómasamlegt bakland. Og auðvitað má spyrja sig hvaða þýðingu það hafi að hafa kjördæmi ef það eru aðilar fyrir sunnan sem skikka íbúa þeirra til að taka við svona sendingum sem enga þekkingu hafa á málefnum kjördæmanna. Svo má minnast á annað mál sem lítið hefur farið fyrir í allri umræðunni um kjördæmi og jafnt vægi atkvæða. Atkvæðavægi er ekki jafnt innan kjördæmanna, þannig er að helmingur kjósenda í norðaustur kjördæmi býr á Akureyri en hún hefur ekki nema tvo til þrjá þingmenn meðan Siglufjörður til dæmis hefur tvo. Þetta ættu framsóknarmenn að hugleiða áður en þeir fara að taka við einhverjum sendingum að sunnan sem ekkert erindi eiga hingað í kjördæmið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.