20.9.2012 | 15:20
Samgöngutímamót
Akureyrarbær tekur nú í fyrsta skipti þátt í hinni árlegu, alþjóðlegu eða evrópsku samgönguviku þó þess gæti lítið í sunnanfjölmiðlum sem einskorða þetta fyrirbæri við reykjavik.is
Nokkur tímamót urðu líka í samgöngu- og umhverfismálum á Akureyri um þesar mundir þar sem hingað eru nú komnir bílar sem hægt er að knýja metani jafnt sem bensíni og fór sá sem þetta ritar í sína fyrstu ferð á metanbíl í gær þó enginn sé enn þá metanstöðin á Akureyri heldur var metanið keypt í Reykjavík og bílnum ekið á bensíni norður. En þetta var nýi bíllinn sem Ferliþjónusta fatlaðra á Akureyri er að taka í notkun.
Ekki fannst manni það nú neitt stórkostleg bylting að aka á metani en umhverfislega hlýtur þetta að teljast mjög merkilegt. Þróunin á næstu árum hlýtur að verða sú að horfið verði í síauknum mæli frá jarðefnaeldsneyti og umhverfislega er metan að möru leyti heppilegur kostur. Það má framleiða úr öskuhaugum, lífrænum úrgangi, jafnvel kúaskít sem þarna gæti orðið að miklum verðmætum, ekki veitir víst af að hjálpa bændum eitthvað. Ýmsar aðrar leiðir eru svo sem til, eins og raforka eða vetni og allar geta þessar leiðir á næstu áratugum hjálpað til að gera þjóðarbúið minna og minna háð olíureikningnum að utan.
Að sönnu kann hagnaður olíufélaganna eitthvað að minnka enda augljóst að samdráttur hlýtur að verða í notkun jarðefnaeldsneytis í hlutfalli við það hversu alltaf mun verða dýrara og dýrara að vinna það vegna erfiðra náttúruaðstæðna. En fyrst af öllu, áður en við förum í það þarfa verkefni að skipta um eldsneytisgjafa þurfum við að veita skattaafslátt bæði þessu á eldsneyti og farartækjum sem knúin eru með því. Það má ekki gerast að látið verði eftir olíufélögunum að skattleggja umhverfisvæna orkugjafa til jafns við olíuna bara til að halda henni samkeppnishæfri. Því miður bendir margt til að Skattmann hugsi ekki þannig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.