17.9.2012 | 20:43
Kjaftshögg náttúrunnar
Mánudagurinn 10. september líður sennilega mörgum Norðlendingnum seint úr minni. Eftir fádæma gott sumar, með hita yfir 20 stig marga daga í röð, fékk náttúran allt í einu ofboðslegt skapvonskukast og gaf fólki aldeilis einn vænan á lúðurinn, svona til að minna á það hver raunverulega réði á Íslandi. Og svo sannarlega sýndi þetta kjaftshögg náttúrunnar okkur það hversu nálægt mörkum hins byggilega heims við í rauninni lifum. Raflínur urðu sverar af ísingu, fé lenti undir fönn og heilu landssvæðin myrkvuðust rétt eins og værum við í Norður-Kóreu. Almannavarnir lýstu yfir neyðarástandi og senda þurfti viðgerðarflokka og fjárleitarmenn allt frá höfuðborgarsvæðinu og norður. Því auðvitað var öllu liðinu safnað saman þar en ekki þar sem bilanirnar verða.
Norðanáhlaupið sýndi okkur glögglega hversu Reykjavíkurmiðað allt þjóðfélagið er orðið. Landsnet sem sjá á um þetta orkunet okkar er með alla sýna viðhaldsþjónustu í Reykjavík, jú eða á Egilsstöðum út af blessuðu álverinu á Reyðarfirði. Meðan sagan sýnir að mesta hættan á bilunum á línukerfinu er yfirleitt á svæðinu frá Blönduvirkjun og austur í Vopnafjörð. Líklega væri vitlegast að stofna nýtt fyrirtæki, jafnvel að einhverju leyti í eigu ríkisins og með höfuðstöðvar á Akureyri, sem sæi um rekstur allra línulagna á Íslandi, hvort sem það eru raflínur, ljósleiðarar eða aðrar línulagnir til orkuflutnings eða fjarskipta. En ekki hafa þetta undir stjórn margra aðila í Reykjavík.
Annað sem athygli vakti voru fjárskaðarnir. Auðvitað hljóta Bændasamtökin að hafa lært sína lexíu og hefja skipuleg, einhvers konar varnarviðbrögð, til dæmis með því að setja á stofn einhvers konar teymi sem skipuleggi aðgerðir komi svona skyndihret eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Mestu skiptir þó að þjóðin geri sér grein fyrir því að íslensk náttúra er óblíð og óútreiknanleg og getur hvenær sem er fengið skapillskuköst af því tagi sem gerðist á dögunum. Það er um að gera að menn láti hana ekki taka sig í bólinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.