27.8.2012 | 20:39
Skólar opna
Eitt órækt merki þess að hið heita sumar sé nú að syngja sitt síðasta er það að nú eru skólarnir sem óðast að opna og umræðan um skólamál tröllríður öllu. Meðal þess sem hvað mest er rætt um er sú tæknibylting sem nú er að verða í skólum og er raunar bara hluti þeirrar tæknibyltingar sem á sér stað í þjóðfélaginu og mun vafalaust gjörbylta því á næstu árum og áratugum. Nú er svo komið að hlutverk kennara er að gjörbreytast þar sem nemendur eru farnir að sitja í tímum sækjandi sér upplýsingar út um allar trissur meðan kennarinn tuðar eitthvað við töfluna sem enginn lætur sig varða.
Sumir ganga svo langt að telja skóla verða úrelta eftir nokkra áratugi og í stað þeirra muni koma einhvers konar þekkingarmiðstöðvar sem fólk muni sækja í og afla sér þeirrar þekkingar sem þörf er á hverju sinni. Verkþjálfun muni færast að mestu yfir á vinnustaði og þjálfunarstöðvar af ýmsu tagi. Þetta er nokkuð róttæk framtíðarsýn og án efa einhverjir áratugir í að hún verði komin til framkvæmda til fulls. Og á meðan þarf sjálfsagt að mennta og ráða kennara eins og nú er gert þótt hlutverk þeirra muni smátt og smátt breytast.
Ekki hefur mjög mikið farið fyrir umræðum um vandamál við kennararáðningar á þessu hausti eins og svo oft áður og ekki hefur heldur verið mikið rætt um jafnrétti til náms eftir búsetu. Að tryggja öllum jafnrétti til náms er nokkuð erfiður hluti en það hefur til dæmis verið gert í Frakklandi með því að fólk sem hefur náð góðum árangri í háskólum hefur átt þess kost að taka sérstök samkeppnispróf og í kjölfar velgengni á þeim þá fær þetta fólk samning um mjög góð kjör gegn skuldbindingu um það að senda megi viðkomandi hvert á land sem er. Eitthvert afbrigði af þessari leið gæti vel komið til greina hér því ekki er hægt að ætlast til að sveitarfélögin fari í blóðuga samkeppni hvert við annað eins og tíðkast hefur til að næla í bestu kennarana án þess að viðkomandi sveitarfélag hafi nokkuð efni á slíku.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.