27.8.2012 | 20:21
Ég sé Akureyri
Það ríkir gleði í Akureyrarbæ þessa dagana. Hefðarfrúin á 150 ára afmæli, höfuðdaginn þann 29. ágúst og að sjálfsögðu verður mikið um dýrðir þó svo Menningarnótt, stjórnmálaátök og aðrar gúrkur veki meiri athygli sunnanfjölmiðlanna. Stórafmæli Akureyrar hlýtur þó að teljast merkisviðburður á landsvísu.
Akureyri hefur óneitanlega lagt ýmislegt til íslenskrar menningar og lista. Segja má einnig að til sé eitthvað sem við getum kallað akureysk menning sem þróast hefur á mjög sérstæðan hátt og óvenjulegan ef mið er tekið af öðrum stöðum á Íslandi. Hér á Akureyri myndast mjög einkennileg blanda þar sem saman fara dönsk og alþjóðleg áhrif og íslensk alþýðumenning sem hér verður líka fyrir miklum áhrifum frá iðnaðarsamfélagi því sem hér byggðist upp og verður til þess að á Akureyri myndast aldrei menning sjávarþorpa. Hér þróast einkennileg blanda alþjóðlegrar hámenningar og innlendrar alþýðumenningar og sést þetta til dæmis í tónlistarlífinu sem mjög var sérstakt. Má að sjálfsögðu persónugera það að miklu leyti í Ingimar Eydal sem var um leið hámenntaður tónlistarmaður en þó mjög alþýðlegur hljómsveitarstjóri, öfugt við menn á borð við Svavar Gests eða Ólaf Gauk. Og vonandi stendur þessi menningararfleifð enn fyrir sínu og verður ekki einhvers konar fjölþjóðlegri eða sunnlenskri útþynningu að bráð.
Ég sé Akureyri sem framsækinn, akureyskan bæ, miðstöð norðurslóðamenningar á heimsvísu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.