30.7.2012 | 20:21
Gúrkur og kínakál
Núna stendur yfir sá árstími sem í fjölmiðlum oftast er kenndur við það grænmeti sem gúrkur nefnist og einkennist helst af því að allt verður að fréttum þó svo að engin sé fréttin í sjálfu sér. Nú á dögunum komu þó fjölmiðlar fram með þá tilbreytingu auk þess að bera fram hefðbundnar gúrkur mátti finna í skálum þeirra ögn af kínakáli. Jú vinur okkar Nupo er enn kominn á kreik. Gjörvöll öll Reykjavík stendur á ótta við þennan skelfilega mann sem menn segja að ætli að gera innrás á norðausturland með gjörvallan kínverska alþýðuherinn á bak við sig. Þykir Ögmundi innanríkisráðherra og öllum gömlu kommunum nóg um þetta og heldur farið að þrengjast um. Aftur þykir ýmsum norðlendingum Reykvíkingar vera farnir að skipta sér allmikið af því þó einhver Kínverji kaupi smá skika af eyðimörkinni á Hólsfjöllum sem hvort eð er enginn nýtir neitt nema ef til vill fáeinar rollur sem eru þar á beit. Á sama tíma og einhver Svíi kaupir upp heilu dalina á Vestfjörðum ásamt meðfylgjandi veiðiréttindum án þess að það heyrist hið minnsta múkk frá yfirvöldum. En setjum sem svo að Ögmundur og flokksystir hans, skákstelpan úr Kópavogi geti hindrað uppbyggingu á Grímstöðum hlýtur maður eiginlega að gera þá kröfu að þau svari því hvaða raunverulegu lausnir þau hafi í atvinnumálum norðausturlands, ef þar má hvorki koma stóriðja með tilheyrandi virkjunum né umhverfisvæn ferðaþjónusta á stað sem nú er svartur sandur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.