17.7.2012 | 21:20
Frá Slóveníu í Kristnes
Þá er blessað sumarfríið á enda. Kominn heim í nýuppgerða íbúðina og hversdagslífið sem óðast að taka völdin á ný. Búinn að verja sumarfríinu í Slóveníu eða öllu heldur Kristnesi með viðkomu í Slóveníu. Vikuferðin til Slóveníu í beinu flugi frá Akureyri var einkar vel heppnuð þó svo að við lægi að maður væri grillaður þarna. Hitinn fór varla niður fyrir 35 stig og mun hafa náð 40 stigum einn daginn.
En Slóvenía er einkar fallegt og áhugavert land og maður lærði heilmikið um stríðið í Júgóslavíu sem reyndar stóð aðeins 10 daga í Slóveníu, enda munu víst Ítalir hafa hótað því að senda NATÓ á Serbana ef þeir hefðu sig ekki hæga. Annars þá fékk maður dálítið nýja sýn á þetta stríð. Maður hafði eiginlega ímyndað sér að þetta hefði verið stríð sem ætti rót sína að rekja til aldagamals menningarmismunar. Að vissu leyti er það rétt en líklegri skýring er þó sú sem maður heyrði þarna að stríðið hefði fyrst og fremst staðið vegna þess óréttlætis sem fólk taldi sig verða fyrir með því að einræðisstjórn Títós (sem reyndar sjálfur var Króati og Slóveni) dró allt fjármagn frá lýðveldunum til fámennrar, spilltrar, serbneskrar yfirstéttar í Belgrad. Sem sagt stríð milli arðræningja og arðrændra eins og flest stríð eru sjálfsagt.
Eftir skemmtilega og lærdómsríka ferð, drjúgan skammt af hvítvíni og Lasko-bjór var gott að hvíla sig í Kristnesi í nokkra daga, borða góðan mat og njóta hæfilegrar þjálfunar og fallegs umhverfis í faðmi Eyjafjarðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.