17.6.2012 | 20:00
Útþynnt þjóðhátíð
Það er kominn 17. júní, hann er meira að segja kominn að kvöldi þegar að þetta er ritað. Manni er í fersku minni hversu mikilvægur þessi dagur var í huga fólks á fyrstu áratugunum eftir stofnun lýðveldisins, en nú á síðustu árum má segja að þessi dagur hafi útþynnst og misst mikið af sínum forna ljóma. Stórt skref var stigið í Reykjavík núna þegar ákveðið var að aflýsa hefðbundnum kvöldskemmtunum. Líklega í sparnaðarskyni og mun þetta hafa mælst misjafnlega hjá fólki. Hér á Akureyri er áfram kvöldskemmtun og sjálfsagt víða þar sem þær hafa tíðkast, enda þróunin í átt að einskonar alþjóðahyggju ekki komin eins langt og í Reykjavík. Svo þversagnakennt sem það nú er þá fylgir þessari alþjóðahyggju mikil þjóðernishyggja jafnvel þjóðremba svo mikil að ekki má minnast á alþjóðastofnanir á borð við Evrópusambandið. Slík þjóðernishyggja er stórskaðleg en samt sem áður höfum við gott af því að minnast þess einn dag á ári hver við erum. Einlæg þjóðernisást samfara virðingu fyrir öðrum þjóðum, siðum þeirra og venjum getur aldrei orðið til annars en góðs. Við skulum reisa þjóðhátíðardaginn okkar úr þessari öskustóð sem hann hefur verið í á síðustu árum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.