6.6.2012 | 21:58
Hið nýja skurðgoð
Árið 2004 varð þjóðin allt í einu agndofa. Forseti Íslands notaði í fyrsta sinn synjunarvald sitt sem hann hafði samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar og það var sem allt stjórnkerfið hefði orðið fyrir hjartaáfalli. Menn héldu að þetta væri ekki hægt, forsetinn mætti ekki haga sér svona, nú hlytu allar stofnanir landsins að líða undir lok.
Ástæðuna fyrir synjun forsetans þekkja allir. Ráðamenn reyndu að beita Alþingi til að knésetja ákveðið fyrirtæki í samkeppnisrekstri, með þegjandi samþykki og jafnvel fyrir forgöngu Davíðs Oddssonar. Þessir menn ýttu forseta út í ystu myrkur og töldu hann bæði óalandi og óferjandi.
Nú er öldin önnur. Þeir hinir sömu og mest hötuðust við forsetann hafa nú gert hann að hinu nýja skurðgoði. Heiðbláustu frjálshyggjumenn á borð við Baldur Hermannsson og fleiri mega vart vatni halda yfir ágæti hins nýja guðs sem frelsa muni þjóðina frá Evrópusambandinu og annarri þeirri vá sem að steðji. Eitt er það þó sem þetta lið hugsar ef til vill ekki út í. Ef Ólafur Ragnar ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér og vera þjóðkjörinn fulltrúi en ekki puntudúkka, þá hlýtur hann að stöðva mál hinnar nýju ríkisstjórnar sem að öllum líkindum mun taka hér við eftir kosningar ef hann telur þessi mál stangast á við vilja þjóðarinnar. Hann mun vonandi ekki ljá máls til dæmis á einkavæðingu raforkunnar eða afsals auðlinda þjóðarinnar til útlendinga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.