6.6.2012 | 21:27
Þjóðirnar hennar Þóru
Þóra Arnórsdóttir var síðust forsetaframbjóðendanna til að mæta í yfirheyrslu hjá Morgunútvarpi Rásar 2 nú í morgun. Hér var um mjög svo áhugavert viðtal að ræða. Í ljós kom að Þóra mun verða fremur leiðitamur forseti, lítt umdeildur og nokkuð vel kynntur.
Eitt atriði í viðtalinu vakti athygli. Hún talaði um þjóðirnar tvær sem hún segir landið byggja. Talaði um muninn sem væri á þeim spurningum sem hún fengi annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Nú er oft talað um þessar tvær þjóðir sem landið byggi, höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina en spurningin er hvort þetta sé ekki dálítil einföldun. Við eigum jú eitt höfuðborgarsvæði sem er nokkuð einsleitt þó svo innfæddir Gaflarar eða Kópavogsbúar neiti því. En það er aftur á móti öllu erfiðara að tala um eina landsbyggð því vitaskuld eru hinar svokölluðu landsbyggðir margar og margvíslegar. Hlutirnir ganga allt öðruvísi fyrir sig til dæmis á Ísafirði en Egilsstöðum og einnig má segja að Akureyri og Suðurnes séu á mörkum þess að geta kallast eiginleg landsbyggð. Að öðru leyti skilgreina menn almennt landsbyggðina sem allt það sem undir Reykjavíkurvaldið er sett og það er æði mikið í miðstýrðu þjóðfélagi eins og hér er.
Draumur Þóru um eina þjóð á sennilega ekki eftir að rætast á næstunni til þess þarf svo róttækar breytingar á stjórnsýslu og efnahagskerfi. Til að byrja með þarf að koma hér á byggðastefnu en hún er engin á Íslandi sem kunnugt er. En vera má að fjölmiðlagæsir geti sungið einhuga íslenskri þjóð lof og dýrð.
Athugasemdir
Ef við 300.000manns sundrumst á næstu árum, mun öll okkar orka og allar auðlindir verða teknar. "divide and dominate" er stefnan á orkuríkum landssvæðum.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.6.2012 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.