21.5.2012 | 20:00
Þing og þjóð
Mikið óskaplega er manni farið að leiðast þetta málþóf um stjórnarskrármálið sem búið er að standa yfir svo dögum og nóttum skiptir. Fátt vitlegt heyrist þarna hjá blessuðum þingmönnunum og stundum er lopinn teygður ansi langt t.d. þegar Árni Jónsen, álfakóngur með meiru, fór að tala um sjómannafslátt. Svo virðist sem blessaðir þingmennirnir beri ósköp lítið skynbragð á stjórnmálafræði eða stjórnmálaheimspeki. Þeir eiga meira að segja í mesta basli við að skilgreina hvað auðlind er og þjóðareign á auðlind. Þannig taldi t.d. Illugi Gunnarsson að ekki væri hægt að tala um þjóðareign því að þjóðin sem slík gæti ekki sýslað með auðlindir heldur yrði ríkið að gera það. Illuga skal því bent á að þjóð og ríki eru tveir aðskildir hlutir. Ríkið er einskonar tæki jafnvel verktaki þjóðarinnar til að framkvæma það sem hún þarf að gera en það er ekki ég eins og Lúðvík sólkóngur sagði í eina tíð. Afraksturinn af auðlindum þjóðarinnar nýtur hún að sjálfsögðu á þeim stað þar sem hún er stödd á, og auk þess njóta hans gestir þjóðarinnar rétt eins og íslenskir gestir erlendis njóta auðlinda þeirra þjóða og þjónustu þar sem þeir búa. Þjóð og ríki er ekki það sama í einu ríki geta búið margar þjóðir og dæmi eru líka til um það að sama þjóðin sé klofinn í tvö ríki. Þessa hluti ættu Illugi og félagar að hugleiða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.