Vorverkin við Austurvöll

Vorið ætlar að láta svolítið á sér standa þessa dagana, að minnsta kosti hér norðan- og austanlands. Ýmis merki vorsins má þó sjá ef vel er að gáð. Sauðburður stendur sem hæst og einhverjir voru búnir að sá og plægja.

Og vorverkin eru á fullu við Austurvöll. Menn hanga í málþófi svo tímunum skiptir við að ræða ekki neitt. Og raunar er það að ýmsu leyti hið besta mál, meðan þeir kjafta svona út af engu gera þeir engar vitleysur á meðan. Illa ígrunduð mál og vitlaus liggja í salti en öðru hverju bráir þó af þeim þingmönnunum svo þeir hespa af nokkrum lögum sem á einn eða annan hátt takmarka einhver réttindi hjá einhverjum. Dæmi um þetta er þessi della sem áfengislagafrumvarpið hans Ögmundar er. Þar er verið að koma í veg fyrir að menn fari á svolítið skondinn hátt í kringum lög, nokkuð sem er jú ekta íslenskur plagsiður. Einhvern veginn tókst mönnum líka að böðlast í gegnum þingið með lög um Stjórnarráðið sem lýst hefur verið yfir að verði afnumin eftir næstu kosningar en lagasetningin mun samt víst kosta einhver milljónahundruð fyrir tóman ríkiskassann.

Væri nú ekki meiri mannsbragur að því að menn tækju sig saman í andlitinu, samþykktu hluti sem þarf að samþykja strax, til dæmis lög um bætt réttindi flóttamanna, Vaðlaheiðargöng og þjóðaratkvæði um stjórnarskrána. Fara síðan heim og njóta sumarblíðunnar ef hún einhvern tímann kemur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband