15.5.2012 | 14:02
Hvítur maí
Nýliðinn aprílmánuður var grænn að minnsta kosti suður í Reykjavík. En lítið fór fyrir þessum græna apríl annars staðar þar sem forvígismenn hans voru eilíft að tala um umhverfismál í borginni sinni sem er svo sem gott og blessað nema hvað Ísland er ekki bara borgin okkar heldur ekki síður náttúran okkar og umhverfið.
En svo kom maí og hann varð hvítur. Á svipuðum tíma og í fyrra brast á með norðanhreti miklu svo snjó tók að kyngja niður um allt norðan og austanvert landið. Aumingja fuglarnir áttu ekkert skjól og blessuð litlu lömbin varð að setja á hús ef pláss var fyrir þau. Þeir fyrir sunnan fórna höndum að vera allt í einu minntir á að við búum á Íslandi en ekki á Kanaríeyjum. Og þetta virðist stundum gleymast í allri umræðunni um umhverfismál. Við bölvum stundum fyrri kynslóðum fyrir að hafa brennt skógana okkar en gerum okkur það ekki ljóst að þetta gerði fólk hreinlega til að það kæmist af. Svo til verði komandi kynslóðir þurftu hinar fyrri að lifa hretin af. En þetta hugsa sumir umhverfissinnar ekki til enda þegar þeir tala um að við þurfum að skila landinu til komandi kynslóða.
Vissulega þurfum við að skila landinu áfram en til þess verðum við að geta þraukað áfram hinn hvíta maí.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.