11.5.2012 | 13:28
Kornabarn á Bessastaði
Þóra Arnórsdóttir Hannibalssonar er hin mætasta manneskja og sómir sér vafalaust vel sem húsráðandi á Bessastöðum. Eitt hið fyrsta sem hún benti á í kosningabaráttu sinni var það að fólk óskaði eftir fjölskyldu á Bessastaði og virðist hún ætla að framkvæma það í verki þar sem hún kvað vera kona eigi einsömul og gæti þess vegna verið búin að eiga áður en varir.
Nú er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að ung móðir setjist að á Bessastöðum og í anda nútímajafnréttis að faðirinn taki fullan þátt í umönnun barnsins. Hefur hann enda rétt á fæðingarorlofi í því skyni. En starf forseta Íslands er barátta ekki venjulegt starf. Og maður hlýtur að spyrja sjálfan sig að því hvernig er fyrir kornabarn að alast upp í hinu, að sumu leyti mjög svo óvenjulega umhverfi forsetaembættisins.
Fyrir það fyrsta mun barnið líkast til lítið sjá af móður sinni sem verður framar öllu að uppfylla hinar margháttuðu skyldur þjóðhöfðingja; taka á móti gestum, fara í opinberar heimsóknir, halda ríkisráðsfundi og svo framvegis. Og líklega mun þetta barn ekki hafa mikil samskipti við önnur börn, jafnvel minni samskipti en börn hinnar venjulegu íslensku yfirstéttar. Þetta barn hlýtur þannig að þroskast við nokkuð sérstakar aðstæður burt séð frá öllum femínisma og slíku. Þetta verður frambjóðandinn að hafa í huga nái hann kosningu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.