7.5.2012 | 20:47
Bakgrunnstékk
Ríkislögreglustjóri ætlaði að sýna þjóðinni hversu barngóður hann væri þegar hann tjáði innanríkisráðherra að óheimilt væri að kanna bakgrunn barna sem ráðin væru til vinnu á flugvallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Reyndar kom í ljós að ekki var um nein börn að ræða heldur 17 ára unglinga sem lofað var einhverri vinnu við afleysingar þar í sumar. En maður verður dálítið hugsi þarna. Það vekur athygli að til skuli vera til reglugerð sem heimili lögreglu að kanna bakgrunn fólks allt að fimm ár aftur í tíma. Þarna er um að ræða ýmis störf sem varða flugöryggi en það hlýtur að vera hægt að koma því svo fyrir að menn geti gert grein fyrir sjálfum sér á fullnægjandi hátt án þess að vera að pukrast með það í einhverjum lögregluherbergjum. Svona rannsóknir verða að vera undir mjög ströngu eftirliti persónuverndar og þeir sem upplýsingarnar veita verða að vera vel meðvitaðir um það hvaða upplýsingar eru veittar og hvernig er með þær farið. Og auðvitað má ekki krefjast upplýsinga um stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð umsækjendanna. Hvað unglinga sérstaklega varðar þá hlýtur það sama að gilda um þá og aðra. Þó svo að íslenskir unglingar séu tæpast félagar í hryðjuverkasamtökum sem lofa 72 hreinum meyjum gerist þeir píslavottar geta þeir oft á tíðum verið í slæmum félagsskap til dæmis dópsala sem gætu freistast til að notfæra sér þessa unglinga til þess að taka þátt í smygli. Hér er annars um mjög viðkvæmt og vandasamt mál að ræða. Menn verða að taka höndum saman við að leysa þetta mál þannig að sjálfsagðir öryggishagsmunir alþjóðaflugs séu virtir en um leið sé full virðing sýnd mannréttindum almennings og fullt tillit sé tekið til einkalífs fólks.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.