5.5.2012 | 21:19
Stéttaskipt heilbrigði
Athyglisverð rannsókn var nýlega gerð á heilbrigði framhaldsskólanema og kom í ljós sú óvænta staðreynd að nemendur bóknámsbrauta voru alla jafna mun heilbrigðari en nemendur verknámsbrauta. Því kemur þetta á óvart, að manni hættir til að halda að nemendur bóknámsbrauta séu almennt meiri kyrrsetumenn og lífsstíll þeirra óhollari. Svo virðist þó ekki vera og læðist að manni sá grunur að skýring þessa sé að hluta til stéttaskipting.
Nú vitum við að nemendur bóknámsdeilda koma almennt úr svokölluðum betri fjölskyldum, hafa meiri fjárráð og betri aðgang að upplýsingum um hollt líferni jafnframt því að vera ef til vill móttækilegri fyrir slíkar upplýsingum. Á þessu þyrfti þó að gera frekari rannsóknir. Til dæmis voru þessir þrír skólar allir í Reykjavík og spurning hvort hér geti ekki einnig verið um mun milli byggðarlaga og landssvæða að ræða. Í þessu sambandi má minna á rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum og leiddi í ljós að konur á Akureyri væru mun feitari en konur í Hafnarfirði. Þetta gefur vissar vísbendingar.
Þá er líka spurning um það hvort að forvarnir í landinu séu ekki á alvarlegum villigötum, hvort ekki verði að breyta þeim, leggja ef til vill minna fé í beinar forvarnir en meira fé í að jafna lífskjör þjóðarinnar, gera fólk til dæmis almennt nógu efnað til að stunda tískulífsstíl millistéttarinnar í Reykjavík sem felst í að fljúga út um allar koppagrundir í því skyni að leika golf eða hlaupa maraþon.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.