2.5.2012 | 16:56
Keyptur áróður
Mikið er skrafað og skeggrætt um kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar og sýnist sitt hverjum um þau. Hér skal ekki í sjálfu sér tekin afstaða til þeirra þó aðeins bent á að of mikil tilfærsla er í þeim á peningum frá landsbyggðinni til úthlutunarnefnda í Reykjavík. Svo sem ekki neitt nýnæmi í því en óneitanlega finnst manni allt tal Vinstri grænna um hagsmuni landsbyggðarinnar eitthvað hjáróma.
En það er annað atriði sem vert er að vekja athygli á. Að undanförnu hafa dunið í eyrum svokallaðar tilkynningar í útvarpinu frá ýmsum aðilum, ekki síst samtökum úterðarmanna í ýmsum byggðalögum, þar sem þessum frumvörpum er fundið flest allt til foráttu. Ein helsta röksemdin fyrir því að reka hér ríkistútvarp er sú að það tryggi hlutlausa umfjöllun um öll mál. Ekki er það beinlínis í þeim anda að hagsmunasamtök geti þannig keypt áróður og undarlegt að engar reglur skuli um þetta gilda. Jú, það má segja sem svo; aðstandendur frumvarpanna ættu að geta auglýst ágæti þeirra einnig, þó þeir hafi einhverra hluta vegna ekki látið af því verða.
Þess má einnig geta að hægt er að finna dæmi um að kostun dagskrárliða hafi haft beinlínis áhrif á dagskrárgerð ríkisútvarpsins. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir verja tilveru þess.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.