22.4.2012 | 20:45
Göng fyrir alla
Á Sprengisandi Bylgjunnar hittust í morgun sveitarstjórnarmaður úr Fjarðarbyggð austur og blaðakona úr Reykjavík. Mátti í þætti þessum glögglega greina hvernig þau voru í raun fulltrúar hinna tveggja þjóða sem Ísland byggja í dag. Konan úr Reykjavík vissi varla að nokkuð væri til á Íslandi utan þessarar Reykjavíkur og Austfirðingurinn talaði um samgöngur og samgöngubætur sem lausn allra vandamála. Hann benti réttilega á þá staðreynd að fáránlegt væri að 600 metra fjallgarður skildi að einstaka hluta sveitarfélags. Raunar flaug manni í hug hversu fáránleg hugmynd það var að fara að sameina sveitarfélög hafandi 600 metra fjall í því miðju. Auðvitað hefði átt að byrja á hinum endanum, koma þessum göngum undir Oddsskarðið í gagnið og ræða síðar sameiningu sveitarfélaganna.
Réttilega benti hann á að nær fjórðungur af útflutningsverðmæti þjóðarinnar fari um Reyðarfjörð sem er í þessu sveitarfélagi og verður því að teljast rökrétt að eitthvað af þessu útflutningsverðmæti hefði farið í að bora þessi göng þar sem þau verða ekki boruð á markaðsforsendum eins og til dæmis Vaðlaheiðargöngin. En auðvitað datt engum í hug að nýta fjármagnið í heimabyggð og hið sama virðist ætla að verða með blessað kvótafrumvarpið þar á að taka allt fjármagnið á landsbyggðinni, flytja til Reykjavíkur og skammta síðan. Í þessu felst íslenska byggðastefnan sem hið hræðilega Evrópusamband segir að ekki sé til á Íslandi. Ef til vill eru menn hræddir við Evrópusambandið út af þessu. En verði arðurinn af útflutningi eins mikið eftir í heimabyggð og efni standa til verður án efa til nægilegt fjármagn svo hægt verði að bora göng fyrir alla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.