Völundarhús velferðar

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður spurði velferðarráðherra nú um daginn hvers vegna svo mjög hafi hækkað gjaldið fyrir sjúkraþjálfun hjá sjúklingum og öryrkjum, meira hjá þessum hópum en öðrum. Velferðarráðherra svaraði en einhvern veginn hafði maður það á tilfinningunni að hann vissi ekki almennilega hvað verið væri að spyrja um. Svar hans var eitthvað þokukennt, óljóst stærðfræðiþrugl, líkt og væri hann lélegur kennari í skóla.

Nú skal þess getið að manni finnst þingmaðurinn dálítið vera að kasta steinum úr glerhúsi með fyrirspurn sinni þar sem ekki er langt síðan hann sem heilbrigðisráðherra vildi meðal annars setja á komugjöld á sjúkrahúsum sem ef ég man rétt áttu að nema fyrir öryrkja þrjú þúsund krónur. Það breytir því ekki að eitthvað finnst manni velferðarráðherra eiga erfitt með að rata um í völundarhúsi velferðarinnar. En hann er svo sem ekki einn um það því þannig er mál með vexti að íslenska velferðarkerfið hefur byggst upp sem alveg ótrúlegt völundarhús með ótal göngum og öngstrætum. Stundum jafnvel ýmsum vitleysum sem enginn hefur hugmynd um að til séu. Getum við nefnt sem dæmi svokallað orlof húsmæðra, reglur um að menn þurfi að hafa átt heima á Íslandi í 40 ár til að eiga rétt á tryggingabótum, þá staðreynd að menn hætta að verða öryrkjar við 67 ára aldur hver svo sem fötlun þeirra er. Eða að það þurfi að endurnýja á nokkurra ára fresti ýmsa hluti til dæmis foreldrar þurfa að staðfesta á tveggja ára fresti að börn þeirra séu með downs heilkenni og ýmislegt fleira í þessum dúr.

Það verður að teljast furðulegt að velferðarráðherrar hverjir svo sem þeir eru hafi ekki haft í sér geð til að laga þetta kerfi, aðlaga það nútímanum og gera það einfaldara og skilvirkara. Og síðast en ekki síst að losna við hreinar vitleysur sem í því eru. Svo virðist sem þeir séu alltaf uppteknir við að horfa á tölurnar sem birtast á tölvuskjánum, hvað kemur inn, hvað fer út, hvað þarf þessi að greiða til að hinn greiði svo rétt þannig að jafnan gangi upp.

Ríkiskassinn verður að stemma þótt fólkið sé fast í fátæktargildru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband