18.4.2012 | 15:49
Varalitur Jóhönnu
Mikið var um dýrðir síðastliðinn mánudag. Þátturinn Virkir morgnar á Rás 2 var sendur út héðan frá Akureyri. Tilefnið var ærið, að afhenda dýrasta kaffimál Íslandssögunnar sem orðið hafði að list við það að á það klesstist varalitur Jóhönnu Sigurðardóttur. Og herlegheitin boðin upp til styrktar langveikum börnum.
Hæsta boð kom frá Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri og var að heyra á forsvarsmönnum hennar að við það að Jóhanna þrýsti vörum sínum að máli þessu hafi það orðið að listaverki, sem reyndar seldist á liðlega hundrað þúsund krónur.
Nú má sjálfsagt lengi deila um það hvað er list. Andy Warhol staflaði eitt sinn upp súpudósum og kallaði listaverk sem selt var og mörgum er í fersku minni hin fræga heysáta sem Súmarar settu upp á Skólavörðuhöltinu, sællar minningar. Vel má vera að kaffimálið hafið þannig orðið að listaverki við það að heilög Jóhanna drakk úr því en ekki er það álit allra listamanna hér í bæ að svo hafi verið. Benda þeir margir á að þeir séu ekki allt of sælir er kemur að fjárveitingum til sjónlista. Því svöruðu forsvarsmenn Sjónlistamiðstöðvarinnar til að þetta ætti ekki að rýra það fjármagn sem ætlað væri til listaverkakaupa þar sem í bókhaldi miðstöðvarinnar yrði þetta flokkað sem auglýsingakostnaður. Og vel má vera að þetta hafi verið glimrandi auglýsingabragð, því listir á Akureyri eiga almennt ekki sérlega greiða leið að fjölmiðlum þessa lands. Og vonandi verður þetta til að bærinn mæti allur til að berja augum kaffimálið dýra þegar það verður til sýnis í Listasafninu á vori komanda.
Athugasemdir
Ég man líka eftir brauðfjallinu á Skólavörðuholtinu. Að vísu fer féð til góðs málefnis, en samt þetta er til háborinnar skammar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.4.2012 kl. 16:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.