Fatlafól á ferðalögum

Sumarið er í nánd og þar með sumarfríin með öllum sínum ferðalögum. Forsvarsmenn ferðaskrifstofanna segja að nú sé runnin upp sú gleðitíð að barnfjölskyldum sé að fjölga í sólarlandaferðum. En það eru eflaust fleiri sem vilja lyfta sér á kreik. Heyrst hefur að þau séu allnokkur fatlafólin sem hyggja á ferðalög þetta sumarið enda búa þau flest við þau einstöku forréttindi að fá að greiða tvöfalt jafnvel þrefalt fyrir ferðina. En mörgum þykir það alveg óskapleg frekja að þetta lið skuli dirfast að minnast á að það vilji ferðast. Menn eru ekkert voða hrifnir af því að sjá hjólastóla þvælast um á ströndunum eða inni á hótelbörum og því er um að gera að gera þeim eins erfitt og hægt er að ferðast. Enda fær þetta fólk hvort eð er pening frá skattborgurum fyrir að gera ekki neitt. Nú tilheyrir sá sem þetta ritar þessu forréttindapakki sem hyggst fara í ferðalag til útlanda í vor, verandi sjónlaus í hjólastól. Ferðinni er heitið í viku til Slóveníu en hún hefði sennilega ekki verið möguleg nema vegna ómetanlegrar hjálpar ættingja og vina, svo og sérstaks liðleika Ferðaskrifstofunnar Nonna á Akureyri, sem skipuleggur ferðina og hefur staðið sig einstaklega vel í öllum undirbúningi og mættu margir taka hana sér til fyrirmyndar. En svona heppnir eru ekki allir. Hún var átakanleg frásögn stúlkunnar frá Akranesi sem þarf að borga þrefalt fyrir útskriftarferð sína þó svo að bekkjarfélagar hennar ætli að hlaupa verulega undir bagga fyrir hana. Í umræðum um þetta hefur nokkuð verið minnst á orlof húsmæðra, en komið hefur upp úr dúrnum að í þetta orlof fara 100 milljónir á ári. Þetta svokallaða orlof húsmæðra hefur sjálfsagt verið hið mesta framfararspor þegar þetta var sett á laggirnar upp úr 1950 en í dag eru það víst mest miðaldra stútungkerlingar sem eru búnar að koma börnum sínum á legg sem fara á kostnað þessa orlofs í ferðalag til útlanda. Þarna eru sem sagt til peningar til greiða niður kostnað til dæmis fyrir fatlaða og aðra hjálp sem þeir þurfa á að halda á ferðalögum ef bara blessaður velferðarráherra kemur auga á peningana og menn hafa dug til þess að hreyfa við kerfi sem löngu er dautt og úrelt sem er þarna einfaldlega vegna þess að það er.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband