28.3.2012 | 22:09
Markaðssett ungmenni
Fornt grískt spakmæli segir: Heilbrigð sál í hraustum líkama. Það er mikið talað um hreysti og heilbrigði nú á síðari árum og mikið talað um það hversu nauðsynlegt sé að blessuð sálin sé nú heilbrigð og sé örugglega í hraustum líkama. Líkamsræktir og hugleiðslur spretta út um borg og bý eins og gorkúlur.
Fyrir nokkrum árum byrjaði á Skjá einum þáttur þar sem fimm eða sex grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu kepptu í einhverju sem kallað var hreysti og var tilgangurinn með þessu efni að efla hreysti og gjörvileik hinna íslensku grunnskólanema. Síðan er margt vatn til sjávar runnið. Skólahreystin hefur flust yfir á Ríkissjónvarpið og orðið að heljarinnar bákni sem kostað er af Mjólkursamsölunni og nær nú til nokkurra tuga skóla um allt land. En nú spyrja margir hvort hreystin sé ekki farin að ganga dálítið út í öfgar þegar hún er farin að lita alla leikfimikennslu þannig að heilbrigt íþróttastarf í skólunum er að hverfa vegna hinna stöðluðu æfinga fyrir sjónvarpið.
Mjólkursamsalan hefur ef til vill ekki mikinn hagnað af þessu en þetta er hins vegar gott tækifæri til að skapa góða ímynd auk þess sem það gefur tækifæri til að markaðssetja þá einstöku hollustuvöru sem á boðstólnum er handa íslensku ungviði, svo sem skólajógúrt og skólaostinn, Gotta sem heitir víst eftir gömlum mafíósa og síðast en ekki síst sultuskyrið sem á sennilega ekki mikið skylt við það gamla góða skyr sem krakkarnir þekktu í sveitinni hér áður fyrr og borðað var með mjólk eða rjómablandi. Þarna má segja að búið sé að markaðssetja grunnskólana líkt og Gettu betur er orðið að markaðsvöru í framhaldsskólunum. En því sem áður voru heilbrigðir leikir og skemmtun hefur nú verið fórnað á altari blindrar markaðshyggju þar sem ungmenni þessa lands fæðast til að verða fyrstu fórnarlömbin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.