Óbilgirni flugfélaga

Vorið er farið að tylla tá sinni hérna á klakann og með vorinu vaknar ferðaþráin. Í fjölmiðlunum bylja sífellt auglýsingar frá hinum ýmsu flugfélögum um tilboð á fargjöldum til útlanda. Og þau munu víst vera fleiri en nokkru sinni fyrr flugfélögin sem fljúga til landsins í sumar. Maður heyrir auglýstar ferðir hvort heldur sem er til London eða Köben fyrir þetta 15 til 17 þúsund krónur og eitt tilboðið hljóðaði upp á 11.900.- krónur til London aðra leiðina með sköttum.

Þetta er allt gott og blessað en þegar við förum að skoða tilboðin á netinu kemur ýmislegt í ljós. Auglýst er tilboð frá Akureyri til Kaupmannahafnar á rúmar 12 þúsund krónur + rúmlega 2 þúsund króna flugvallarskattur og einhver 9.200 krónur sem kallað er önnur gjöld án þess að það sé nokkuð útskýrt. Þess má einnig geta að oft eru þessi tilboð blekking það er að segja sætin eru svo fá að þau eru jafnvel uppseld áður en tilboðin eru auglýst. Og einnig er ef til vill hægt að finna ódýrt fargjald út en maður verður svo að sæta því að kaupa annað heim á okurverði.

Flugfélög sýna hér oft mikla óbilgirni í samskiptum sínum við neytendur og svo virðist sem enginn neytendavernd sé í boði gagnvart þeim. Ef þú til dæmis kaupir ódýrasta fargjaldið verður það líklega ekki endurgreitt jafnvel þótt þú deyir nema jú þú hafir vit á því að kaupa forfallatryggingu sem kostar einhver þúsund. Og svo máttu oft ekki hafa neinn handfarangur meðferðis. Eitt breskt lággjaldaflugfélag mun meira að segja hafa krafist 8 punda greiðslu fyrir hjólastóla sem er gott ef ekki er bannað með alþjóðalögum. Það er mjög áríðandi að yfirvöld hér á þessari eyju úti í ballarhafi séu vel vakandi fyrir því að neytendum sé tryggð hin besta vernd gegn þeirri óbilgirni og eigingirni sem einkennir flugreksturinn og hefur lengi gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband