Tvískinnungur Ögmundar

Vítisenglum, Banditos og öllu því dóti hefur borist liðsauki úr óvæntri átt. Í dag var verið að ræða á Alþingi frumvarp Ögmundar okkar innanríkisráðherra um auknar heimildir lögreglunnar til forvirkra rannsókna. Töldu sumir þingmenn frumvarp þetta ekki ganga nógu langt og ekki breyta miklu en Ögmundur vildi ekki ganga lengra og lagðist meðal annars alfarið gegn banni við þessum samtökum eða jafnvel því að merki og einkenni þessara samtaka sæjust á almannafæri.

Hér þykir manni Ögmundur sýna nokkurn tvískinnung. Hann hefur lengi barist fyrir því að troða í gegn áfengislagafrumvarpi þar sem lagt er bann við öllum óbeinum auglýsingum á áfengi, þar með talið auglýsingum á léttöli sem líkist umbúðum á sterkum bjór. Það virðist þannig vera miklu hættulegra fyrir íslenskan æskulýð að sjá eitthvert bjórvörumerki heldur en að sjá einhver merki Vítisengla eða einhverra annarra glæpasamtaka. Vitanlega eru slík merki sterk tákn fyrir unglinga og af þeim stafar dýrðarljómi.

Ef Ögmundur ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér þá ætti hann að leyfa bjórmerki á hverju götuhorni en gera bara bjórinn óæskilegan í umræðu þjóðarinnar. Það er besta forvörnin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Ég hlustaði á Ögmund í Kastljósinu í kvöld og hann útskýrði þetta mjög vel að mínu mati. Reynsla annarra þjóða og því t.d. að þá gætu menn notað önnur tákn hvort sem er, þessvegna tattú. Heimildir lögreglu í Danmörku eru meiri en það hefur ekki stemmt stigum við samtökum á borð við þau sem hafa verið í umræðunni. Mér þykir gott að við skoðum reynslu nágrannaþjóða okkar og að við reynum að nýta okkur hana þegar við getum. Held að betra sé að banna þeim ekki að nota merki sín og jakka, við vitum þá hver er á ferðinni ef við viljum vita.

Það sést vel að um bjór er að ræða í dósum og flöskum , ekki væri betra að fela innihaldsmerkingar á þeim drykkjum og ég tel ekki um sambærileg atriði að ræða og sé því ekki tvískinnung í þessu eins og þú gerir.

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 21.3.2012 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband