21.3.2012 | 22:00
Harmleikur í Frakklandi
Síðustu daga höfum við fylgst náið með hörmulegum atburðum sem átt hafa sér stað í Toulouse í Frakklandi. Ungur maður af alsírskum uppruna hefur gengið þar um og drepið fólk, nú síðast nokkur börn í gyðingaskóla. Komið hefur í ljós að þessi ungi maður hefur haft tengsl við hin illræmdu al-Qaedasamtök og er vafalaust haldinn blindri trúarfíkn. Svo blindri að siðferðiskennd hans hefur með öllu horfið. Maður á erfitt með að skilja hvers vegna einhver fordæmir glæpi Ísraelsmanna á herteknu svæðunum en fremur svo nákvæmlega þessa sömu glæpi sjálfur. Auðvitað gátu þessi aumingja gyðingabörn í Frakklandi ekkert gert að óhæfuverkum samlanda sinna í Ísrael.
Ef maður þekkir Frakka rétt þá eiga þessir atburðir ekki eftir að draga úr því landlæga hatri sem í Frakklandi viðgengst gagnvart Aröbum og á sér ýmsar sögulegar og félagslegar skýringar. Maður kynntist þessu vel á námsárunum þar. Arabar voru þá mjög áberandi í skólunum og voru ætíð litnir hornauga enda hópuðust þeir mjög saman. Einhvern veginn bar þó ekki á miklu trúarofstæki meðal þessara arabísku námsmanna og heldur virtust þeir taka trúna lítið alvarlega. Þeir þömbuðu bjór með öðrum ef svo bar undir og hálfskömmuðust sín ef maður spurði hvort það bryti ekki í bága við trúna. Hins vegar voru þeir öllu strangari varðandi svínakjötið. Það varð alltaf að vera eitthvað annað á boðstólnum ef svínakjöt var í matinn í stúdentamötuneytunum.
Eiginlega hefur það komið manni svolítið á óvart að hugsa um allt það hryllilega trúarofstæki sem margir ungir múslímar virðast vera haldnir í dag. Líklega er hægt að ánetjast trú eins og hverri annarri fíkn. Og þessi fíkn getur leitt af sér hræðilegri afleiðingar en flestar aðrar fíknir. En vonandi er að franska þjóðin fari ekki á límingunum eftir þennan hroðalega harmleik í Toulouse.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.