8.3.2012 | 15:17
Okursamfélagið enn.....
Undanfarna daga hefur mátt heyra í fjölmiðlum hljómfagrar auglýsingar frá Flugfélagi Íslands þess efnis að "ef ég sé orðinn leiður á að hanga í bíl skuli ég ferðast með stíl" að sjálfsögðu með téðu flugfélagi. Þetta er gott og blessað nema hvað það "að ferðast með stíl" finnst manni einhvern veginn merkja að það sé að ferðast með glæsibrag, jafnvel dýrt, með góða þjónustu og flottheit. Að sönnu er það vægast sagt dýrt að ferðast með þessu flugfélagi hvað sem líður þjónustu þess og glæsibrag. En það má líka segja að ef maður leggur þessa merkingu í orðtakið "að ferðast með stíl" þá á það einnig að nokkru leyti við um það að hanga í bíl því ekki er það heldur neitt sérlega ódýrt. Hvort tveggja eru þetta greinar af meiði þess sem við getum nefnt Hið íslenska okursamfélag.
Það er sama hvert litið er, alls staðar blasir okrið við. Og að sjálfsögðu gengur hið opinbera á undan með góðu fordæmi og hækkar skatta á öllu, lifandi sem dauðu. Og eftir höfðinu dansa limirnir. Fjölmiðlar laumast til að hækka áksriftir sínar án þess að tilkynna, sérfræðilæknar búa til nýtt gjald upp á 3500.- krónur þegar Sjúkratryggingar vilja ekki semja og ýmsum laumugjöldum er komið á án þess að nokkur taki eftir. Og öll er þjóðin orðin svo samdauna þessu samfélagi að enginn æmtir né skræmtir..... en þegar á að hækka lítillega laun eða tryggingabætur verður fjandinn laus. Hrópað er og kallað um að verið sé að setja þjóðina á hausinn, að kassinn sé tómur og því um líkt.
Á meðan situr Björgólfur úti í London og kaupir símafélag í Búlgaríu fyrir einhverja milljarða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.